Langþráður Jólaborgari Daníels fyllti Fiskbúð Fjallabyggðar – Myndir
Fös - 5. Desember 2025 - 11:09 — Smári

Jólaborgarinn frægi
Í nóvember, tvær síðustu helgarnar, buðu matreiðslumennirnir Daníel Pétur Baldursson og Hákon Sæmundsson upp á PopUp í Fiskbúð Fjallabyggðar þar sem hinn sívinsæli Jólaborgari var á matseðlinum. Siglfirðingar létu ekki bjóða sér það tvisvar og var straumur gesta frá upphafi, enda margir sem hafa beðið eftir jólaborgaranum í heilt ár. Þetta var í tíunda sinn sem Daníel býður upp á þennan eftirminnilega borgara sem hefur ávallt notið mikilla vinsælda.

Daníel ánægður með meistaraverkið
Daníel lýsti ánægju sinni með að fá aftur tækifæri til að elda fyrir heimamenn. Hann rak veitingastaðinn Torgið um árabil við góðan orðstír og starfar nú sem yfirmatreiðslumaður á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Siglufirði.

Hákon gefur purusteikinni lokasnúninginn í pizzaofninum
Jólaborgarinn sjálfur fékk frábærar undirtektir. Hann samanstendur af smössuðum og karamelluseruðum hamborgara í dúnmjúku brauði með sultuðum rauðlauk, rauðkáli og camembert-osti, ásamt bragðmiklu chillimæjó. Þá leikur purusteikin aðalhlutverkið, stökk, safarík og fullkomlega elduð. Útkoman reyndist vera nákvæmlega það sem gestir vonuðust eftir og hlaut afar góðar viðtökur.

Stökk og bragðmikil purusteik

Siglfirðingar voru ánægðir með PopUp viðburðinn

Vinirnir Hákon og Daníel
Myndir: Smári
